Að gefa út upp á guðbrenzku eða upp á koðrænu – Nýja textafræðin um miðbik nítjándu aldar og deilurnar um fyrstu málsögulegu útgáfurnar af íslenskum fornritum

Aktivitet: Tale eller præsentation - typerForedrag og mundtlige bidrag

Gottskálk Jensson - Andet

Á árunum 1857-1860 lentu tveir Hafnar-Íslendingar þeir Konráð Gíslason (1808–1891) og Guðbrandur Vigfússon (1827–1889) í ritdeilu um aðferðirnar sem bæri að viðhafa þegar íslensk fornrit eru gefin út á prenti. Þótt efnið væri þurrt og sérhæft tókst þeim samt að skemmta meinfýsnum löndum sínum á kostnað hvor annars jafnframt því sem þeir miðluðu fræðslu um hvað væri efst á baugi í texta- og útgáfuvísindum í Kaupmannahöfn. Guðbrandur vakti deiluna með grein í Nýjum félagsritum 1857 „Um stafróf og hneigíngar“ en þar gagnrýndi hann stafsetningu Konráðs, einkum það að skrifa je í stað é, sem hann sagði ungt og komið frá prentsmiðjunni í Leirárgörðum. Konráð svaraði í akureyrska fréttablaðinu Norðra og sýndi Guðbrandi sem var yngri að árum og skemmra á veg kominn í fræðunum megna fyrirlitningu, uppnefndi málfræði hans „guðbrenzku“ en hann sjálfan „Goðbrand“ – og síðar í annarri grein „Joðbrand“ fyrir andstöðuna við je-stafsetninguna. Guðbrandur baðst þá hálfgert vægðar í Reykjavíkurblaðinu Þjóðólfi en reyndi þó eitthvað að svara í sömu mynt, m.a. með því að kalla málfræðiskrif Konráðs „koðrænu“. Í Ný félagsrit 1858 skrifaði Guðbrandur síðan merkilegan ritdóm um nokkrar nýlegar Íslendingasagnaútgáfur frá Norræna fornritafélaginu í Kaupmannahöfn þar á meðal útgáfu Konráðs af Gísla sögu frá 1949. Auk þess að benda á verulegan ágalla á útgáfunni (mikilvægt skinnbókarbrot hafði gleymst) skammar hann Konráð fyrir að gefa út „stafsetníngar útgáfur“ (þ.e. stafréttar útgáfur) sem hann fullyrðir að séu „erlendar að kyni“, Íslendingum hafi aldrei líkað slíkar útgáfur „því þeir vita sem er að sögur eru til þess, að læra á sagnafróðleik og forna siðu forfeðra sinna, en ekki til þess að læra á þeim skinnbóka eðr múnkaskript.“ Konráð svaraði aftur með skætingi og útúrsnúningum í þremur stuttum greinum í Norðra árin 1858 og 1860 sem hann kallaði „Um guðbrenzku I-III“. Þótt blaðadeilur þessar væru kersknisfullar bjó alvara að baki enda voru báðir menn frumkvöðlar í beitingu nýju textafræðinnar á íslensk fornrit og áttu þátt í því að móta tvenns konar viðmið um frágang fornritaútgáfna sem síðar urðu viðtekin vinnuregla. Í erindinu hyggst ég skoða bakgrunn ritdeilunnar í nýju textafræðinni en helsti fulltrúi hennar í Kaupmannahöfn var Johan Nicolai Madvig (1804–1886) prófessor í klassískum fræðum. Ég mun einkum reyna að lýsa framlagi Konráðs Gíslasonar nemanda Madvigs til þessara útgáfuvísinda en hann þróaði öðrum fremur nýja tegund vísindalegrar útgáfu sem sérstaklega var ætlað að vera rannsóknargagn fyrir íslenska málsögu og samanburðarmálfræði.
26 sep. 2019

Ekstern organisation

NavnHaskoli Islands, Islands Universitet

ID: 308899642